Hamar og Stokkseyri í ham – KFR tapaði

Sam Malson skoraði fyrir Hamar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var líf og fjör og mikið af mörkum í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld þar sem Hamar og Stokkseyri náðu í sigra en KFR tapaði.

Hamar tók á móti KFB og vann öruggan 5-0 sigur. Unnar Magnússon og Sam Malson skoruðu í fyrri hálfleik og Malson kom Hamri svo í 3-0 í upphafi seinni hálfleiks. Óliver Þorkelsson og Kristófer Örn Kristmarsson skoruðu svo á lokakafla leiksins.

Stokkseyri vann sömuleiðis öruggan sigur á Gullfálkanum, þó að mörkin hefðu að ósekju getað orðið fleiri. Þórhallur Aron Másson kom Stokkseyringum í 0-2 með marki í sitthvorum hálfleiknum en heimamenn minnkuðu muninn um miðjan seinni hálfleikinn og lokatölur urðu 1-2.

Það gekk hins vegar ekki eins vel hjá KFR sem tók á móti Ísbirninum. Gestirnir komust yfir undir lok fyrri hálfleiks og bættu svo við tveimur mörkum í seinni hálfleik án þess að KFR næði að svara fyrir sig. Lokatölur á Hvolsvelli 0-3.

Staðan í A-riðlinum er þannig að KFR er í 6. sæti með 3 stig en í B-riðlinum er Hamar í 2. sæti með 13 stig og Stokkseyri í 5. sæti með 6 stig. Í næstu umferð verður stórleikur í riðlinum þegar Hamar heimsækir Stokkseyri á miðvikudagskvöld.

Fyrri greinOddaleikur í Þorlákshöfn á laugardaginn
Næsta grein„Spennandi tímar framundan“