Hamar og Selfoss sigruðu – Hrunamenn hrelldu toppliðið

Arnaldur Grímsson var stigahæstur Selfyssinga. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar og Selfoss unnu sína leiki í 1. deild karla í körfubolta í kvöld á meðan Hrunamenn töpuðu fyrir toppliði Álftaness í mikilli stigaveislu.

Hamar heimsótti Skallagrím í Borgarnes. Leikurinn var sveiflukenndur í fyrri hálfleik og staðan í leikhléi var 40-45, Hamri í vil. Hvergerðingar juku forskotið í seinni hálfleiknum og sigruðu að lokum 79-91. Björn Ásgeir Ásgeirsson átti frábæran leik fyrir Hamar, skoraði 26 stig, tók 7 fráksöt og sendi 6 stoðsendingar.

Í Gjánni á Selfossi var botnlið Þórs frá Akureyri í heimsókn. Selfyssingar létu til sín taka strax í 1. leikhluta og leiddu í leikhléi, 55-38. Munurinn jókst enn frekar í 3. leikhluta, þar sem Selfyssingar skoruðu 38 stig og þó að Þór hafi saxað lítillega á forskotið í 4. leikhluta kom það ekki að sök og lokatölur urðu 111-89. Arnaldur Grímsson var bestur í liði Selfoss með 23 stig og 9 fráköst en Selfyssingar fengu gott framlag frá mörgum leikmönnum í kvöld.

Á Flúðum mættu Hrunamenn svo toppliði Álftanes og þar var fátt um varnir. Álftnesingar höfðu frumkvæðið lengst af en Hrunamenn voru í seilingarfjarlægð allan tímann. Staðan í hálfleik var 48-56 í hálfleik og eftir 69 stiga 3. leikhluta var staðan orðin 82-91. Álftnesingar héldu sínu striki í 4. leikhluta og sigruðu að lokum, 114-121. Ahmad Gilbert var með risaframlag fyrir Hrunamenn, skoraði 44 stig, tók 7 fráköst, sendi 7 stoðsendingar og stal 5 boltum.

Staðan í deildinni er þannig að Hamar er í 2. sæti með 38 stig, Selfoss í 6. sæti með 22 stig og Hrunamenn í 8. sæti með 18 stig. Þrjár umferðir eru eftir af deildarkeppninni og í næstu umferð mætast Hamar og Selfoss. Leikurinn fer fram í Hveragerði 10. mars.

Skallagrímur-Hamar 79-91 (15-26, 25-19, 21-23, 18-23)
Tölfræði Hamars: Björn Ásgeir Ásgeirsson 26/7 fráköst/6 stoðsendingar, Jose Medina 20, Elías Bjarki Pálsson 19/9 fráköst, Ragnar Nathanaelsson 10/12 fráköst/5 varin skot, Alfonso Birgir Gomez 8/7 fráköst, Haukur Davíðsson 6, Daníel Sigmar Kristjánsson 2/5 fráköst.

Selfoss-Þór Ak. 111-89 (31-14, 24-24, 38-31, 18-20)
Tölfræði Selfoss: Arnaldur Grímsson 23/9 fráköst, Gerald Robinson 21/7 fráköst, Kennedy Clement 19/4 fráköst, Ísar Freyr Jónasson 18, Birkir Hrafn Eyþórsson 12, Ísak Júlíus Perdue 9/13 stoðsendingar, Styrmir Jónasson 7, Skarphéðinn Árni Þorbergsson 2.

Hrunamenn-Álftanes 114-121 (22-29, 26-27, 34-35, 32-30)
Tölfræði Hrunamanna: Ahmad Gilbert 44/7 fráköst/7 stoðsendingar/5 stolnir, Samuel Burt 25/12 fráköst, Yngvi Freyr Óskarsson 17/7 fráköst, Óðinn Freyr Árnason 12/5 stoðsendingar, Hringur Karlsson 8, Dagur Úlfarsson 4, Páll Magnús Unnsteinsson 4.

Fyrri greinFuglar og skollar á golfvellinum
Næsta greinÖruggur sigur Selfyssinga á unglingamóti HSK