Hamar og Selfoss áfram í bikarnum

Hamar og Selfoss komust í kvöld í 32-liða úrslit Borgunarbikars karla í knattspyrnu en KFR og Ægir eru úr leik.

Hamar og KFR áttust við á Grýluvelli í Hveragerði og þar voru heimamenn sprækari. Samúel Arnar Kjartansson kom Hvergerðingum yfir á 22. mínútu og reyndist það eina mark leiksins. Rangæingar áttu sín færi en inn vildi boltinn ekki og niðurstaðan nokkuð sanngjarn sigur Hvergerðinga.

Selfyssingar heimsóttu 4. deildarlið Knattspyrnufélags Hlíðarenda og tefldi Gunnar Guðmundsson fram sterku liði í leiknum. Elton Barros skoraði tvö mörk fyrir Selfoss undir lok fyrri hálfleiks og Magnús Ingi Einarsson bætti þriðja markinu við á 86. mínútu. Heimamenn náðu að klóra í bakkann í uppbótartíma en samkvæmt tölfræði úrslit.net átti Selfoss 23 marktilraunir í leiknum gegn fjórum marktilraunum heimamanna.

Ægismenn fengu Aftureldingu í heimsókn í Þorlákshöfn og þar unnu gestirnir öruggan 0-4 sigur. Staðan var 0-2 í hálfleik en Mosfellingar gerðu út um leikinn með tveimur mörkum til viðbótar í upphafi síðari hálfleiks.

Fyrri greinSandvíkingur
Næsta greinHermundur og Tinna sjá um Bryggjuhátíð