Hamar og KFR töpuðu

Hamar og KFR töpuðu leikjum sínum í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld og hvorugt liðið náði að skora mark.

Hamar heimsótti Gróttu þar sem Seltirningar komust yfir á 17. mínútu leiksins og staðan var 1-0 í hálfleik. Grótta bætti við öðru marki á 60. mínútu og þar við sat, 2-0.

KFR fékk KV í heimsókn og reyndust gestirnir sterkari, enda í harðri toppbaráttu á meðan KFR skrapar botninn. KV leiddi 0-2 í hálfleik og bætti við tveimur mörkum í seinni hálfleik. Lokatölur 0-4 og KV fór í toppsætið með sigrinum.