Hamar og KFR gætu mæst í bikarnum

Dregið hefur verið í fyrstu umferðum Borgunarbikars karla og kvenna í knattspyrnu. Keppnin hefst 3. maí hjá körlunum en 15. maí hjá konunum.

4. deildarlið Stokkseyri tekur á móti utandeildarliði Ármanns, Ægir heimsækir Reyni Sandgerði en bæði lið spila í 2. deildinni, 3. deildarlið Hamars fær 4. deildarlið Snæfell í heimsókn, 4. deildarlið Árborgar mætir 3. deildarliði Víðis á heimavelli, 3. deildarlið KFR spilar gegn 4. deildarliði Álftaness á SS-vellinum og utandeildarlið Gnúpverja heimsækir 4. deildarlið KFG.

Komist sunnlensku liðin áfram í 2. umferð bíða þeirra ýmsir athyglisverðir leikir. Þannig gætu Hamar og KFR mæst í 2. umferð og Ægir gæti fengið Aftureldingu í heimsókn.

1. deildarlið Selfoss kemur inn í keppnina í 2. umferð og mætir þá annað hvort Knattspyrnufélagi Hlíðarenda eða Kóngunum, en þau lið mætast í 1. umferð.
Sigurvegararnir í 2. umferð fara í 32-liða úrslit og þar mæta liðin í Pepsi-deildinni til keppni.
Úrslitaleikurinn í karlaflokki fer fram á Laugardalsvelli 16. ágúst en konurnar heyja sína úrslitabaráttu tveimur vikum síðar á sama stað.
Fyrri greinMikki Refur
Næsta greinOddur vill óhlutbundna kosningu