Hamar og FSu töpuðu fyrir norðan

Hamar og FSu héldu norður fyrir heiðar í dag og léku í kvöld gegn toppliðum Tindastóls og Þórs í 1. deild karla í körfubolta. Hamar tapaði naumlega fyrir Þór og FSu varð undir í baráttunni við Tindastól.

Leikurinn Hamars og Þórs var jafn allan tímann, liðin skiptust fjórtán sinnum á að taka forystuna og munurinn varð aldrei meiri en sjö stig á hvorn veginn sem var. Staðan í hálfleik var 49-51, Hvergerðingum í vil.

Þór var yfir nánast allan 4. leikhlutann en þegar 17 sekúndur voru eftir var staðan jöfn 97-97. Þórsarar skoruðu tveggja stiga körfu þegar tíu sekúndur voru eftir og Hamar geystist í sókn þar sem brotið var á Braga Bjarnasyni sem keyrði upp að körfunni á lokasekúndunni. Bragi fékk tvö vítaskot en það fyrra geigaði og því náði Hamar ekki að tryggja sér framlengingu.

Danero Thomas skoraði 39 stig fyrir Hamar og tók 16 fráköst. Halldór Gunnar Jónsson skoraði 16 stig, Bragi Bjarnason 15, Snorri Þorvaldsson 11, Aron Freyr Eyjólfsson 10, Stefán Halldórsson 4 og Sigurður Orri Hafþórsson 3.

Sauðkrækingar höfðu ekki fyrir því að skrá lifandi tölfræði á meðan á leik Tindastóls og FSu stóð en leikurinn var jafn og FSu inni í honum allan tímann. Tindastóll skoraði síðustu fimm stigin á lokamínútu leiksins en tapaðir boltar og einbeitingarleysi gerðu út um sigurvonir FSu.

Hamar er í 7. sæti deildarinnar með 10 stig en FSu í því 8., einnig með 10 stig.