Hamar og Árborg úr leik

Markaskorarinn Georg Guðjohnsen sækir að marki Kára í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar og Árborg eru úr leik í Fótbolti.net bikarnum, bikarkeppni neðrideildarliða, eftir tapleiki í 32-liða úrslitunum í kvöld.

Hamar fékk Kára í heimsókn á Grýluvöll, Kári leikur í 2. deildinni en Hamar í þeirri fjórðu. Káramenn mættu af krafti í leikinn og voru komnir í 0-2 þegar fimmtán mínútur voru liðnar. Hamarsmenn svöruðu með marki frá Georg Guðjohnsen á 42. mínútu og staðan var 1-2 í hálfleik. Gestirnir stýrðu leiknum í seinni hálfleiknum og bættu við marki á 67. mínútu. Lengra komust Káramenn ekki en Ísak Sindri Daníelsson Martin, markvörður Hamars, sá til þess. Hann átti nokkrar stórar vörslur en allt kom fyrir ekki og Kári sigraði 1-3.

Á Sauðárkróki heimsótti 4. deildarlið Árborgar 3. deildarlið Tindastóls. Árborgarar voru sterkari í fyrri hálfleiknum en þrátt fyrir það komst Tindastóll yfir á 16. mínútu. Árborgarar misstu þá boltann á hættulegum stað og skot Stólanna fór af varnarmanni í netið. Staðan var 1-0 í hálfleik og bæði lið áttu ágæt færi framan af seinni hálfleik. Þegar korter var eftir hertu heimamenn tökin og náðu inn öðru marki á 79. mínútu. Eftir það var ljóst í hvað stefndi og Tindastóll vann öruggan sigur.

Ægismenn mæta Haukum á útivelli í 32-liða úrslitunum á miðvikudagskvöld.

Fyrri greinFréttir af baggavélum og lömbum
Næsta greinMetfjöldi skráður í FSu næsta haust