Hamar og Ægir byrja vel í úrslitakeppninni

Pétur Geir Ómarsson skoraði sigurmark Hamars. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar og Ægir sigruðu í fyrri leikjum sínum í 8-liða úrslitum 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Hamar vann Kormák/Hvöt 3-2 á heimavelli en Ægismenn eru í mjög góðri stöðu eftir 0-2 sigur gegn Ými á útivelli. Liðin mætast aftur á þriðjudag en samanlögð úrslit úr leikunum tveimur ráða hvaða lið komast í undanúrslit 4. deildarinnar. Ef sunnlensku liðin klára sitt verkefni munu þau mætast í undanúrslitum.

Hamar lenti undir í leiknum í kvöld en Sam Malson jafnaði með marki úr vítaspyrnu á 36. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik. Hvergerðingar voru sprækir í upphafi seinni hálfleiks og Malson kom þeim í 2-1 á 59. mínútu. Tíu mínútum síðar var staðan orðin 3-1 þegar Pétur Geir Ómarsson skoraði. Kormákur/Hvöt minnkaði muninn í 3-2 með dýrmætu útivallarmarki á 77. mínútu og þar við sat.

Ýmir og Ægir mættust í Kórnum og þar reyndust Ægismenn sterkari. Stefan Dabetic kom þeim yfir á 15. mínútu og staðan var 0-1 allt fram á 70. mínútu að Goran Potkozarac bætti við öðru marki fyrir Ægi.

Fyrri greinÞrjú HSK met í Reykjavíkurmaraþoninu
Næsta greinVilltist við Sólheimajökul