Hamar tapaði heima gegn Vængjum Júpíters í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld á sama tíma og Árborg sigraði Hafnir á útivelli.
Það var bongóblíða á Grýluvelli í Hveragerði í kvöld þar sem Vængir Júpíters heimsóttu Hamar. Gestirnir fengu vítaspyrnu strax á 5. mínútu og komust yfir þar en Arnór Ingi Davíðsson jafnaði metin fimm mínútum síðar með gullfallegu marki. Staðan var 1-1 í hálfleik en Vængir komust aftur yfir á 56. mínútu eftir snarpa sókn.
Hagur Hvergerðinga vænkaðist á 69. mínútu þegar markvörður Vængja fékk rauða spjaldið fyrir að handleika boltann utan vítateigs. Hamarsmönnum tókst hins vegar ekki að nýta liðsmuninn og Vængir voru nær því að bæta við marki þegar þeir fengu dauðafæri í uppbótartímanum. Lokatölur 1-2.
Árborg lenti undir
Það var ekki eins mikið bongó inni í Reykjaneshöllinni, á heimavelli Hafna þar sem Árborg var í heimsókn. Heimaliðið byrjaði betur og komst í 1-0 á 22. mínútu en fimm mínútum síðar jafnaði Aron Freyr Margeirsson fyrir Árborg. Staðan var 1-1 í leikhléi en Árborgarar voru sterkari í seinni hálfleiknum og skoruðu þrisvar. Kristinn Ásgeir Þorbergsson kom þeim yfir á 64. mínútu og á þeirri 77. breytti Aron Darri Auðunsson stöðunni í 1-3. Kristinn Ásgeir innsiglaði svo 1-4 sigur Árborgar þegar hann skoraði sitt annað mark á fjórðu mínútu uppbótartímans.
Eftir fjórar umferðir er Árborg í 3. sæti deildarinnar með 10 stig en Hamar er á botninum án stiga.