Hamar notaði fimm markmenn

Hamar tapaði 5-1 þegar liðið heimsótti Grundarfjörð í vægast sagt athyglisverðum leik í 3. deild karla í knattspyrnu í dag.

Aðstæður við knattspyrnuiðkunar voru afspyrnuslakar í Grundarfirði í dag en leikurinn fór fram í hífandi roki þar sem vindurinn stóð á annað markið.

„Þetta var mesta rok sem ég hef á ævi minni spilað í og dómarinn hefði flautað leikinn af eða frestað honum ef þetta hefði ekki verið lokaumferðin. Þetta var eiginlega aldrei fótboltaleikur, ef markmennirnir reyndu að sparka út þá fór boltinn í hornspyrnu,“ sagði Ingólfur Þórarinsson, þjálfari og einn fimm markvarða Hamars, í samtali við sunnlenska.is.

Grundfirðingar léku með vindinn í bakið í fyrri hálfleik og þeir komust yfir á 18. mínútu. Í kjölfarið var Benóný Þórhallssyni, markverði Hamars, sýnt rauða spjaldið fyrir mótmæli og Hvergerðingar því einum færri síðustu 70 mínúturnar. Varnarmaðurinn Kjartan Guðjónsson tók að sér markmannsstöðuna út fyrri hálfleikinn en Grundfirðingar skoruðu þrjú mörk undir lok hans og leiddu 4-0 í hálfleik.

„Í leikhléinu fékk Víðir Leifsson, þjálfari, þá hugmynd að vera ekki með markmann í seinni hálfleiknum. Þannig að ég fór í markmannstreyjuna og spilaði síðan sem nokkurs konar markvörður/sweeper,“ sagði Ingólfur en hann gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnu í síðari hálfleiknum. „Vítaskyttan gat varla skotið á móti vindinum þannig að ég átti ekki í vandræðum með þetta. Ég fékk eitt mark á mig og varði víti í mínum fyrsta og síðasta leik sem markmaður,“ segir Ingólfur.

Samúel Arnar Kjartansson minnkaði muninn í 4-1 í upphafi seinni hálfleiks en það var eina mark Hamars þrátt fyrir nokkur ágæt færi á meðan Grundfirðingum gekk illa að koma boltanum framyfir miðju vegna mótvindsins.

En markvarðasviptingarnar voru ekki búnar hjá Hamarsliðinu því um miðjan seinni hálfleikinn skipti miðjumaðurinn Sölvi Víðisson um stöðu við Ingólf. Á lokamínútunum fékk Gunnar Björn Helgason, markvarðarþjálfari, svo heiðursskiptingu og lék þar með sinn fyrsta deildarleik síðan hann lék með HK gegn KVA í 2. deildinni árið 2000.

Hamarsmenn tefldu aðeins fram tveimur varamönnum í leiknum, þeim Ingólfi og Gunnari Birni. Ingólfur var í leikbanni í leiknum en Hamarsmenn gerðu samkomulag við Grundfirðinga fyrir leik um að fá að nota Ingólf í leiknum ef þeir þyrftu á honum að halda.

Hamar lauk keppni í 3. deildinni í botnsætinu með sjö stig eftir tvo sigra, eitt jafntefli og fimmtán töp.

Fyrri greinBaráttan ekki búin hjá Ægi
Næsta greinEins stigs tap hjá Hamri