Hamar náði ekki að nýta liðsmuninn

Magnús Ingi Einarsson skoraði mark Hamars. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar og Skallagrímur gerðu jafntefli í 4. deild karla í knattspyrnu í dag á sama tíma og Uppsveitir fengu skell gegn ÍH.

Hamar heimsótti Skallagrím í Borgarnes og þar kom Magnús Ingi Einarsson Hvergerðingum yfir strax á 6. mínútu. Skallagrímur jafnaði metin á 43. mínútu og einni mínútu síðar fékk leikmaður þeirra að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt. Manni fleiri tókst Hamarsmönnum ekki að komast yfir aftur og niðurstaðan varð 1-1 jafntefli.

Uppsveitir mættu ÍH á Kaplakrikavelli og áttu þar við ofurefli að etja. Staðan var orðin 2-0 eftir fimmtán mínútna leik og þannig stóðu leikar í hálfleik. ÍH bætti svo við sex mörkum í seinni hálfleiknum og vann 8-0 sigur.

Þegar þrjár umferðir eru eftir af riðlakeppninni er Hamar í toppsæti C-riðils með 28 stig og þurfa þeir einn sigur til viðbótar til þess að tryggja sig inn í úrslitakeppnina. Uppsveitir eru hins vegar í 7. sæti A-riðils og ekki á leið í úrslit.

Fyrri greinSelfoss upp í 2. sætið
Næsta greinBrynjólfur bjargaði stigi fyrir Ægi