Hamar náði ekki að knýja fram sigur

Hamar tapaði 2-1 þegar liðið heimsótti Völsung í 2. deild karla í knattspyrnu á Húsavík í dag.

Hamarsmenn voru síst lakari aðilinn í leiknum en fengu á sig ódýr mörk og gekk að sama skapi illa upp við mark Völsunganna.

Völsungur komst yfir strax á 12. mínútu leiksins en rúmum tíu mínútum síðar jafnaði Aron Már Smárason leikinn fyrir Hamar.

Staðan var 1-1 í hálfleik en Völsungur skoraði sigurmark leiksins eftir sextíu mínútna leik og þar við sat.

Hamar er í 10. sæti deildarinnar með 8 stig en bilið upp í Njarðvík hefur aukist í 8 stig þar sem Njarðvík lagði Reyni í 13. umferðinni.