Hamar missti hausinn undir lokin

Hamar tók á móti Þór Akureyri í 1. deild karla í körfubolta í dag. Hamar hafði yfirhöndina lengst af en undir lokin varð ótrúlegur viðsnúningur í leiknum og Hamar tapaði 77-85.

Hamar byrjaði betur í leiknum, komst í 21-7 seint í 1. leikhluta en staðan að honum loknum var 24-13. Jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta en staðan í hálfleik var 46-33 og Hvergerðingar í nokkuð góðum málum.

Þórsarar klóruðu í bakkann í upphafi síðari hálfleiks og þegar síðasti fjórðungurinn hófst var munurinn tíu stig, 67-57. Hamar skoraði hins vegar ekki stig fyrstu fimm mínútur fjórða leikhluta á meðan Þórsarar hlóðu í, tóku 0-20 áhlaup og breyttu stöðunni í 67-77.

Þessi viðsnúningur var eins og blautt og ískalt handklæði framan í Hamarsliðið sem átti sér ekki viðreisnar von eftir þetta og Þórsarar héldu norður með tvö stig í farteskinu.

Það sauð á Halldóri Gunnari Jónssyni, fyrirliða Hamars, þegar hann ræddi við sunnlenska.is eftir leik. „Þetta var rosalegur viðsnúningur þarna í 4. leikhluta en við fengum mikið mótlæti frá dómaratríóinu sem raðaði á okkur villunum í 3. og 4. leikhluta. Við létum þetta fara allt of mikið í skapið á okkur og misstum hausinn algjörlega þarna á fimm mínútna kafla.“

Danero Thomas var bestur í liði Hamars með 26 stig og 14 fráköst auk 7 stoðsendinga. Ingvi Guðmundsson skoraði 13 stig, Bragi Bjarnason 12, Halldór Gunnar Jónsson 8, Sigurbjörn Jónasson 6, Bjarni Rúnar Lárusson 4, Kjartan Kárason 3, Stefán Halldórsson og Bjartmar Halldórsson 2 stig hvor og Aron Freyr Eyjólfsson 1.

Fyrri greinRótarý veitti viðurkenningar og fjárstyrki
Næsta greinHamar tapaði í baráttuleik