Hamar missti af úrslitakeppninni

Hamar kemst ekki í úrslitakeppni 4. deildar karla í knattspyrnu eftir að liðið tapaði 2-3 gegn ÍH á Grýluvelli í kvöld.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik, bæði lið nálguðust leikinn nokkuð varlega en inn á milli komu góð áhlaup á báða bóga, þó fátt væri um opin færi.

Hamar komst yfir á 13. mínútu með marki úr vítaspyrnu. Hlynur Kárason, markvörður, stakk boltanum upp til vinstri á Daníel Rögnvaldsson sem átti góða sendingu fyrir á Loga Geir Þorláksson. Logi lét vaða að marki en leikmaður ÍH renndi sér fyrir boltann og virtist fá hann í höndina. Vítaspyrna. Miðvörðurinn Örlaugur Magnússon, fyrirliði Hamars, fór á punktinn og skoraði af öryggi.

Á 20. mínútu var Daníel nálægt því að skora þegar hann skallaði fyrirgjöf frá Friðriki Emilssyni rétt framhjá. ÍH-ingar svöruðu hins vegar fyrir sig á 31. mínútu þegar Eiríkur Kúld skoraði með lúmsku skoti úr teignum eftir að Hamarsmönnum hafði mistekist að hreinsa boltann úr teignum. 1-1 í hálfleik.

ÍH var mun sterkari aðilinn framan af síðari hálfleik og Hvergerðingar komust varla framyfir miðju. Gestirnir óðu þó ekkert í færum en þegar leið á seinni hálfleikinn þyngdust sóknir þeirra. Eiríkur Kúld var aðgangsharður, átti aukaspyrnu rétt framhjá á 63. mínútu og stangarskot á 67. mínútu. Annað mark ÍH lá í loftinu og þremur mínútum síðar skoraði Hilmar Geir Eiðsson með ótrúlegu skoti. Hann fékk boltann með bakið í markið fyrir framan vítateiginn og náði einhvern veginn að snúa sér í skotinu og „slæsa“ boltann upp í samskeytin.

Á 76. mínútu vænkaðist hagur Hvergerðinga þegar Stefán Jónsson náði að espa einn gestanna upp. Sá ýtti við Stefáni og uppskar rautt spjald fyrir vikið, en Stefán gult. Gestirnir lögðu þó ekki árar í bát og tveimur mínútum síðar skoraði Eiríkur Kúld aftur, með frábæru skoti úr teignum upp í samskeytin, óverjandi fyrir Hlyn Kárason.

Eftir þriðja markið bökkuðu gestirnir og Hamarsmenn færðu sig upp á skaftið í kjölfarið. Þeir uppskáru þó lítið annað en hálffæri þangað til á 85. mínútu að Örlaugur skoraði sitt annað mark með skoti af stuttu færi eftir hornspyrnu. Hvergerðingar reyndu allt hvað af tók í uppbótartímanum en vörn ÍH gaf engin færi á sér.

Eftir leikinn er Hamar með 18 stig í 4. sæti og getur mest náð 24 stigum vinni liðið Kóngana og Mána í síðustu tveimur leikjunum. Það dugar þó skammt því Árborg hefur nú þegar 25 stig í 2. sæti og ÍH 26 stig í toppsætinu.

Fyrri greinSelfossbæir fallegasta gatan í Árborg
Næsta greinHljómræn framvinda sellós og raddar