Hamar og Valur hófu í kvöld úrslitaeinvígi sitt um laust sæti í Domino's-deild karla í körfubolta. Valur hafði betur í fyrstu rimmunni, 87-83, en leikið var að Hlíðarenda.
Fyrsti leikhlutinn var jafn, Hamar komst í 4-12, en Valur svaraði með 8-1 áhlaupi og staðan að 1. leikhluta loknum var 19-20. Hamar var áfram skrefinu á undan í 2. leikhluta og náði mest 11 stiga forskoti, 25-36, en staðan í hálfleik var 36-45.
Hamarsmenn mættu ágætlega stemmdir til síðari hálfleiks og juku forskot sitt enn frekar í upphafi 3. leikhluta. Valsarar skoruðu hins vegar ellefu stig í röð undir lok 3. leikhluta og í upphafi þess fjórða og breyttu þá stöðunni úr 53-67 í 64-67 – og leikurinn allt í einu galopinn.
Síðasti fjórðungurinn var æsispennandi og munurinn á liðunum tvö til þrjú stig allt fram á lokamínútuna en þá skriðu Valsmenn framúr á vítalínunni á meðan þrjú þriggja stiga skot hjá Hamri geiguðu.
Þorsteinn Már Ragnarsson var stigahæstur Hvergerðinga með 22 stig, Örn Sigurðarson skoraði 20, Jerry Lewis Hollis 17 auk þess sem hann tók 11 fráköst, Lárus Jónsson skoraði 9, Oddur Ólafsson 7, Halldór Gunnar Jónsson 5, Hallgrímur Brynjólfsson 3. Ragnar Nathanaelsson kom boltanum aldrei í körfuna en reif niður tíu fráköst.
Næsti leikur í einvíginu er í Hveragerði kl. 19:15 á sunnudagskvöld. Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki fer upp í úrvalsdeild.