Hamar með mikilvægan sigur – Selfoss tapaði naumlega

Jose Aldana skoraði 20 stig fyrir Hamar. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Hamar vann mikilvægan sigur á Álftanesi í toppbaráttu 1. deildar karla í körfubolta í kvöld á meðan Selfoss tapaði naumlega fyrir Skallagrími.

Hamar byrjaði af krafti í leiknum gegn Álftanesi en gestirnir náðu að minnka muninn aftur fyrir leikhlé, 56-54 í hálfleik. Hvergerðingar léku vel í 3. leikhluta og lögðu þar grunninn að sigrinum. Lokatölur urðu 104-96. Jose Aldana var stigahæstur hjá Hamri með 20 stig og þeir Michael Philips og Ruud Lutterman skoruðu 19.

Selfoss tók á móti Skallagrími sem hefur verið á miklu skriði í deildinni. Staðan var 38-37 í leikhléi og leikurinn var í járnum langt fram í 4. leikhluta. Á síðustu þremur mínútunum  skriðu Skallagrímsmenn framúr en léleg vítanýting varð Selfyssingum að falli. Þeir skoruðu aðeins úr 10 af 24 vítaskotum sínum í leiknum og töpuðu 68-73. Kristijan Vladovic skoraði 16 stig fyrir Selfoss og Sveinn Búi Birgisson 14.

Eftir leiki kvöldsins er Hamar í 2. sæti deildarinnar með 16 stig, eins og topplið Breiðabliks. Selfoss er í botnsætinu með 6 stig, eins og Hrunamenn og Fjölnir.

Tölfræði Hamars: Jose Aldana 20/6 fráköst/13 stoðsendingar, Michael Philips 19/19 fráköst/4 varin skot, Ruud Lutterman 19/8 fráköst, Þorvaldur Orri Árnason 17/5 fráköst, Ragnar Jósef Ragnarsson 16, Pálmi Geir Jónsson 11/8 fráköst, Ragnar Magni Sigurjónsson 2.

Tölfræði Selfoss: Kristijan Vladovic 16/7 fráköst/9 stoðsendingar, Sveinn Búi Birgisson 14/6 fráköst, Kennedy Clement Aigbogun 13/6 fráköst, Terrence Christopher Motley 11/16 fráköst/6 stoðsendingar, Aljaz Vidmar 7/6 fráköst, Gunnar Steinþórsson 5, Arnór Bjarki Eyþórsson 2.

Fyrri greinBarbára best hjá Selfyssingum
Næsta greinSunnlendingar sýni biðlund vegna óvissu í bólusetningum