Hamar með gott tak á Val

Kvennalið Hamars vann góðan sigur á Val í Domino's-deildinni í körfubolta í kvöld, 75-69.

Hamar leiddi allan fyrri hálfleikinn, Chelsie Schweers, nýr bandarískur leikmaður Hamars, gaf tóninn með fyrstu fimm stigum leiksins og Hamar leiddi 29-24 að loknum 1. leikhluta. Hvergerðingar bættu um betur í 2. leikhluta, og náðu mest ellefu stiga forskoti undir lok leikhlutans. Staðan í hálfleik var 48-37.

Þriðji leikhlutinn einkenndist af töpuðum boltum og hörku varnarleik hjá báðum liðum. Liðin skoruðu aðeins tvær körfur á fyrstu fimm mínútum síðari hálfleiks en Valur náði að minnka muninn niður í tíu stig, 58-48. Hamarsliðið hélt boltanum ekki nægilega vel, en þrátt fyrir sautján tapaða bolta hjá Hamri í seinni hálfleik náðu Valsmenn ekki að nýta sér það.

Það stefndi allt í dramatískar lokamínútur í 4. leikhluta, Valur náði að jafna, 63-63, þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af leiknum en Hvergerðingar hleyptu þeim aldrei framúr og gáfu aftur í. Íris Ásgeirsdóttir skoraði dýrmætan þrist þegar rúm mínúta var eftir og Schweers gerði endanlega út um leikinn þegar 41 sekúnda var eftir þegar hún skoraði síðustu körfu leiksins og Hamar sigraði, 75-69, og Valur átti engin svör.

Schweers var stigahæst hjá Hamri með 25 stig, Fanney Guðmundsdóttir skoraði 23, Marín Davíðsdóttir 11 auk þess að taka 12 fráköst, Íris Ásgeirsdóttir skoraði 8 stig, Kristrún Antonsdóttir 4 og Katrín Eik Össurardóttir og Sóley Guðgeirsdóttir skoruðu 2 stig hvor.

Hamar er í 6. sæti deildarinnar með 16 stig en liðin eru í þéttum hnapp í 4.-7. sæti deildarinnar.