Hamar með góðan útisigur

Hamar byrjar vel í 1. deild karla í körfubolta en liðið lagði Breiðablik í kvöld á útivelli, 70-85.

Fyrsti leikhlutinn var jafn en Hamar náði sex stiga forskoti um hann miðjan, 13-19. Staðan var 21-28 fyrir Hamri eftir 1. leikhluta en Þorsteinn Gunnlaugsson fór mikinn í upphafi leiks og skoraði sautján stig í 1. leikhluta.

Breiðablik minnkaði muninn í eitt stig í upphafi 2. leikhluta en þá tóku Hvergerðingar aftur við sér og hleyptu Blikum ekki framúr. Staðan í hálfleik var 38-42.

Hamar hélt forskotinu allan 3. leikhluta og stakk svo af í upphafi þess fjórða. Hamar hóf síðasta fjórðunginn á 2-15 áhlaupi og gerði þar með út um leikinn.

Þorsteinn var stigahæstur hjá Hamri með 25 stig og 15 fráköst. Julian Nelson skoraði 21 stig, Örn Sigurðarson 16, Halldór Gunnar Jónsson 13, Kristinn Ólafsson og Bjartmar Halldórsson 4 og Bjarni Rúnar Lárusson 2.

Fyrri greinHveragerði tapaði fyrir Garðabæ
Næsta greinMílan fékk skell gegn Víkingum