Hamar með góð tök á Val

Hamar lagði Val að velli í annað sinn í Domino's-deild kvenna í körfubolta þegar liðin mættust í íþróttahúsinu í Hveragerði í kvöld. Lokatölur voru 72-64.

Valskonur byrjuðu betur í leiknum og leiddu 7-17 að loknum sex mínútum en Hamar minnkaði muninn í 14-19 undir lok 1. leikhluta. Hvergerðingar fóru svo á kostum í upphafi 2. leikhluta og náðu tíu stiga forskoti með 17-2 áhlaupi, 31-21. Staðan var 37-32 í hálfleik.

Valur byrjaði betur í seinni hálfleik og náði mest sex stiga forskoti, 43-49, þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af 3. leikhluta en þá kom góð rispa frá Hamri sem jafnaði leikinn, 51-51, með síðustu körfu 3. leikhluta.

Í upphafi síðasta fjórðungsins skelltu Hamarskonur í lás í vörninni og Di’Amber Johnson og Marín Davíðsdóttir léku á alls oddi í sókninni. Þær stöllur skoruðu fyrstu átján stig Hamars í 4. leikhluta og staðan var orðin 69-57 þegar tvær mínútur voru eftir – og sigurinn var Hamars.

Valur klóraði í bakkann á síðustu mínútunum en Fanney Lind Guðmundsdóttir svaraði með þriggja stiga körfu og Hamar hélt forystunni til loka.

Johnson var besti maður vallarins með 25 stig fyrir Hamar, Marín skoraði 22, Fanney 11, Íris Ásgeirsdóttir 9 stoðsendingar, Kristrún Rut Antonsdóttir 3 og Regína Ösp Guðmundsdóttir 2.

Hamar er nú í 4. sæti deildarinnar með 12 stig.