Hamar með fínan sigur í fyrsta leik

Hamar vann fyrsta leikinn í undanúrslitarimmunni við Hött í 1. deild karla í körfubolta, 86-73, þegar liðin mættust í Hveragerði í gærkvöldi.

Oddur Ólafssson, leikmaður Hamars, var ánægður með sigurinn en sagði liðið hafa farið allt of illa af stað. “Við erum búnir að vera lélegir í síðustu tveimur leikjum og vorum dálítið lengi í gang í kvöld. Fyrri hálfleikurinn var ekki góður en svo löguðum við til í varnarleiknum og kláruðum leikinn í 3. leikhluta,” sagði Oddur í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Fyrri hálfleikur var í járnum og gestirnir skrefinu á undan ef eitthvað var. Staðan í hálfleik var 38-40.

Hvergerðingar gerðu síðan út um leikinn í 3. leikhluta þar sem þeir spiluðu frábæra vörn og luku leikhlutanum á 18-4 áhlaupi. Eftirleikurinn var auðveldur og síðasti fjórðungurinn var aldrei spennandi.

Örn Sigurðarson og Jerry Hollis voru stigahæstir hjá Hamri með 18 stig en Hollis tók 14 fráköst að auki og átti 7 stoðsendingar. Ragnar Á. Nathanaelsson skoraði 11 stig, tók 17 fráköst og varði 6 skot, Oddur Ólafsson skoraði 9 stig, Lárus Jónsson og Hallgrímur Brynjólfsson 8, Þorsteinn Már Ragnarsson og Bjartmar Halldórsson 6 og Björgvin Jóhannesson 2.

Staðan í einvíginu er 1-0 en liðin mætast næst á Egilsstöðum á föstudagskvöld.

Fyrri greinÍbúðalánasjóður auglýsir til leigu
Næsta greinEðlilegt ástand við Heklu