Hamar mætir KFS í undanúrslitum 4. deildarinnar

Bjarki Rúnar Jónínuson, Matthías Rocha og Guðmundur Karl Þorkelsson fagna mikilvægu marki Bjarka í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar mætir KFS frá Vestmannaeyjum í undanúrslitum 4. deildar karla í knattspyrnu. Hamar sló út KH í 8-liða úrslitum en KFR tapaði fyrir KFS.

Leikur Hamars og KH á Grýluvelli í dag var fjörugur og spennandi framan af en bæði lið fengu úrvals færi áður en ísinn var brotinn á 68. mínútu. Eftir klafs í vítateig KH barst boltinn út á Bjarka Rúnar Jónínuson sem þrumaði knettinum í netið. Fyrri leikur liðanna fór 2-0 fyrir Hamri, þannig að nú þurftu KH menn að skora þrjú mörk til að komast áfram. Þeir sóttu talsvert síðasta korterið en Hamarsvörnin var þétt og varnarmenn Hvergerðinga hentu sér fyrir alla bolta. Gestunum tókst þó að koma boltanum í netið í uppbótartímanum en nær komust þeir ekki. Lokatölur urðu 1-1 og Hamar fagnaði samtals 3-1 sigri.

KFR var í ágætri stöðu eftir 2-1 sigur á heimavelli í fyrri leiknum gegn KFS. Eyjamenn réðu hins vegar lögum og lofum á Hásteinsvelli í dag og sigruðu 6-0, þannig að lokatölur í einvíginu urðu 7-2, KFS í vil.

Það er því ljóst að Hamar og KFS munu mætast í undanúrslitum 4. deildarinnar. Leikið verður heima og heiman og samanlögð úrslit ráða því hvort liðið fer upp í 3. deildina.

Fyrri leikur liðanna verður í Vestmannaeyjum næstkomandi laugardag og síðari leikurinn á Grýluvelli kl. 15:30, miðvikudaginn 30. september.

Fyrri greinFámennasta HSK þingið í 61 ár
Næsta greinToppbaráttan galopin eftir tvö töp í röð