Hamar Lengjubikarmeistari í C-deild

Hamarsmenn náðu með mikilli seiglu að tryggja sér Lengjubikarmeistaratitilinn í C-deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi með 5-6 sigri á KFG eftir vítaspyrnukeppni.

Hamarsmenn léku manni fleiri nær allan tímann eftir að leikmaður KFG hafði fengið rautt spjald strax á 10. mínútu. Skömmu síðar kom Friðrik Örn Emilsson Hamri í 0-1. Garðbæingar gáfust ekki upp og náðu að skora tvívegis fyrir hálfleik þannig að leikar stóðu 2-1 í leikhléi.

Þriðja mark KFG kom svo á upphafsmínútum síðari hálfleiks og allt útlit var fyrir að bikarinn færi í Garðabæinn. Lokamínúturnar voru hins vegar ótrúlegar en Hamar náði að jafna metin á síðustu fimm mínútum leiksins og knýja fram vítaspyrnukeppni. Páll Pálmason minnkaði muninn í 3-2 á 85. mínútu og hann var svo aftur á ferðinni á síðustu mínútu leiksins og jafnaði 3-3.

Í vítaspyrnukeppninni nýttu Hamarsmenn þrjár spyrnur en Garðbæingar tvær og Hvergerðingar fögnuðu innilega í leikslok. Þetta er fyrsti deildarbikarmeistararatitill félagsins.