Hamar leit vel út á heimavelli

Hamar leiðir nú í einvíginu gegn FSu um sæti í úrvalsdeild karla í körfubolta eftir sannfærandi sigur í Hveragerði í kvöld, 86-71.

Fyrirfram bjuggust flestir við jöfnum leik en jafnræðið varði ekki nema fyrstu mínúturnar. FSu skoraði fimm fyrstu stigin og leiddi þar til þrjár mínútur voru eftir af 1. leikhluta, 14-16. Þá svaraði Hamar með 20-3 áhlaupi og eftir það var eiginlega ekki spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda.

Hamarsmenn litu mjög vel út og leiddu 50-37 í hálfleik á meðan FSu-liðið virtist ráðalaust í sókninni, þar sem Ari Gylfason var í strangri gæslu og aðrir voru að hitta illa.

Hamar hélt forskotinu í 3. leikhluta og bætti svo enn frekar í undir lokin þar sem FSu skoraði aðeins 11 stig í 4. leikhluta og að lokum skildu fimmtán stig liðin að.

Julian Nelson var besti maður vallarins í kvöld með 22 stig og 13 fráköst fyrir Hamar. Örn Sigurðarson skoraði 21 stig og Þorsteinn Gunnlaugsson 18. Bjarni Rúnar Lárusson byrjaði leikinn mjög vel og skoraði 11 stig á fyrstu 11 mínútunum. Þá meiddist hann illa á ökkla og spilaði ekki meira í kvöld en óvíst er með þátttöku hans í næsta leik. Hjalti Þorleifsson skoraði 8 stig fyrir Hamar og Stefán Halldórsson 6.

Collin Pryor og Ari Gylfason eiga mikið inni til að sýna í næsta leik. Collin var stigahæstur hjá FSu með 18 stig en Ari skoraði 9 enda fékk hann engan frið frá Hamarsmönnum í vörninni. Hlynur Hreinsson átti fínan leik með 14 stig, Erlendur Ágúst Stefánsson skoraði sömuleiðis 14, Birkir Víðisson 7, Maciej Klimaszewski 4 og Geir Helgason 3.

Liðin mætast aftur í Iðu á sunnudagskvöld og með sigri þar tryggja Hvergerðingar sér sæti í úrvalsdeild. Sigri FSu á heimavelli verður oddaleikur í Iðu miðvikudaginn 15. apríl.

Fyrri greinAlvarlegt umferðarslys á Biskupstungnabraut
Næsta greinViðbrögð leikmanna: „Ég hafði góða tilfinningu fyrir þessu“