Hamar lagði botnliðið

Hamar batt endahnút á tapleikjahrinu í 1. deild karla í körfubolta með því að vinna Þór Akureyri 95-85 í Frystikistunni í Hveragerði í kvöld.

Það tók Hamarsmenn nokkrar mínútur að ræsa ísvélina og botnliðið komst í 4-12 áður en Hvergerðingar létu til sín taka. Heimamenn voru ekki lengi að komast á beinu brautina, náðu 28-23 forystu undir lok 1. leikhluta og tóku svo góða 16-2 rispu undir lok 2. leikhluta. Staðan var 50-32 í hálfleik.

Hvort Hamarsliðið hafi talið að björninn væri unninn í hálfleik er ekki ljóst en liðið gaf eftir í síðari hálfleik og Þórsarar minnkuðu muninn smátt og smátt.

Hamar hafði tíu stiga forskot þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum, 89-79, en Hvergerðingar náðu að halda Þórsurum í tíu stiga fjarlægð á lokamínútunum.

Julian Nelson var stigahæstur hjá Hamri með 23 stig, Örn Sigurðarson skoraði 20 stig og Þorsteinn Gunnlaugsson 15 auk þess að taka 13 fráköst. Snorri Þorvaldsson skoraði 13 stig, Bjartmar Halldórsson, Sigurður Orri Hafþórsson og Kristinn Ólafsson 6, Mikael Rúnar Kristjánsson 4 og Stefán Halldórsson 2.

Hamar er í 3. sæti deildarinnar með 16 stig, tveimur stigum á eftir FSu og sex stigum á eftir toppliði Hattar.

Fyrri greinGovens flottur í fyrsta leik
Næsta greinBæði Selfossliðin sigruðu