Hamar lagði Stokkseyri

Hamar vann Stokkseyri 0-2 og Árborg gerði 2-2 jafntefli við KB í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í gær.

Leikur Stokkseyrar og Hamars á Selfossvelli var markalaus í fyrri hálfleik, en strax á annarri mínútu síðari hálfleiks kom Friðrik Örn Emilsson Hvergerðingum yfir. Kristinn Hólm Runólfsson bætti svo öðru marki við fyrir Hamar á 71. mínútu og lokatölur urðu 0-2.

Þetta var fyrsti leikur liðanna í riðlinum, Hamar er með 3 stig í 3. sæti og Stokkseyri í 6. sæti án stiga.

Árborg heimsótti KB í Breiðholtið og þar var fyrri hálfleikur einnig markalaus. KB komst yfir á 53. mínútu en á 65. mínútu jafnaði Magnús Helgi Sigurðsson metin fyrir Árborg.

Aðeins þremur mínútum síðar var KB liðið aftur komið með forystuna en á 77. mínútu jafnaði Eiríkur Elvy fyrir Árborg með marki úr vítaspyrnu eftir að brotið var á Hartmanni Antonssyni innan vítateigs.

Árborg hefur gert jafntefli í báðum leikjum sínum í riðlinum og er með tvö stig í 4. sæti.

Fyrri greinAnna Margrét sigraði upplestrarkeppnina
Næsta greinViðar skoraði í tapleik