Hamar lá heima

Hamarskonur töpuðu 66-89 þegar þær fengu KR í heimsókn í Iceland Express-deildinni í körfubolta í dag.

KR byrjaði betur í leiknum og komst í 0-3 en Hamar minnkaði muninn í 10-13 og þannig stóðu leikar að loknum 1. leikhluta. KR jók forskotið í byrjun 2. leikhluta en Hamar náði að jafna, 17-17. KR náði í kjölfarið tíu stiga forskoti, 21-31, en Hamarskonur voru ekki hættar og minnkuðu muninn í 4 stig fyrir hálfleik, 33-37.

Hamar elti KR eins og skugginn í 3. leikhluta en gestirnir náðu 14 stiga forskoti undir lok hans og þær gerðu svo endanlega út um leikinn í upphafi 4. leikhluta með 14-2 leikkafla á fyrstu fimm mínútum hans. Staðan var þá 55-78 og munurinn hélst svipaður síðustu fimm mínúturnar.

Tölfræði leiksins undirstrikar greinilega styrk og breidd KR umfram Hamar en bekkurinn hjá KR skoraði 44 stig á móti 7 stigum Hamars.

Samantha Murphy var lang stigahæst hjá Hamri með 33 stig og 10 fráköst. Álfhildur Þorsteinsdóttir skoraði 12 stig og Jenný Harðardóttir 10.