Hamar lá gegn Grindavík í Smáranum

Franck Kamgain. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar heimsótti Grindavík í úrvalsdeild karla í körfubolta í dag. Leikið var í Smáranum í Kópavogi þar sem Grindvíkingar hafa ekki aðgang að heimavelli sínum í heimabænum þessa dagana.

Eftir jafnar upphafsmínútur gekk allt á afturfótunum hjá Hamri undir lok 1. leikhluta og Grindavík leiddi að honum loknum, 26-12. Grindvíkingar héldu sínu striki í upphafi 2. leikhluta og juku forskotið jafnt og þétt. Staðan var orðin 46-29 þegar loksins kviknaði á Hamarsmönnum og þeir minnkuðu muninn í 52-38 fyrir hálfleik.

Hamri tókst ekki að ógna forystu Grindvíkinga að ráði í seinni hálfleiknum. Grindavík náði 21 stigs forskoti í 3. leikhluta en þegar tæpar sjö mínútur voru eftir hafði Hamar minnkað muninn í tíu stig, 77-67. Nær komust Hvergerðingar ekki og Grindavík vann að lokum öruggan sigur, 100-80.

Jalen Moore var stigahæstur hjá Hamri með 26 stig og 7 stoðsendingar, Franck Kamgain skoraði 16 stig, Danero Thomas skoraði 15 stig og tók 7 fráköst og Ragnar Nathanaelsson skoraði 9 stig og tók 9 fráköst.

Hamar er sem fyrr á botni deildarinnar án stiga en Grindavík er í 9. sæti með 8 stig.

Fyrri greinMyndbrot Elfars Guðna í Listagjánni
Næsta greinÞorkell Ingi ráðinn markmannsþjálfari