Hamar lætur Cotton fara

Körfuknattleiksdeild Hamars hefur sagt upp samningi við Brandon Cotton og hefur hann yfirgefið landið.

Cotton kom til Hamars þegar tímabilið var hafið eftir stutta dvöl í herbúðum Snæfells. Hann spilaði sex leiki fyrir Hvergerðinga, skoraði 33 stig að meðaltali og var með meðalframlag upp á 25.

Þrátt fyrir ágætis tölur sagði Lárus Friðfinnsson, formaður körfuboltadeildarinnar, að aðrir þættir hafi spilað inní og leikmaðurinn hafi ekki staðið undir væntingum. Hamar hefur ekki hug á að bæta nýjum Kana í hópinn fyrr en eftir áramót en liðið á einn leik eftir fram að jólum.