Hamar-KR 1-0: Frábær leikur Kristrúnar

Kvennalið Hamars lék frábærlega í kvöld þegar það lagði KR í fyrstu viðureigninni í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. Hamar sigraði 79-92. Kristrún Sigurjónsdóttir átti frábæran leik og skoraði 27 stig.

Leikurinn var hnífjafn í fyrri hálfleik. KR hafi forystuna lengst af en Hamarskonur komust yfir fyrir leikhlé, 49-51. Hamar lagði grunninn að sigrinum í 3. leikhluta með frábærri vörn þar sem KR skoraði aðeins 9 stig gegn 20 stigum Hamars.

KR hefur haft stífan varnarleik í hávegum í vetur en í kvöld voru Hamarskonum allar leiðir færar í sókninni og sigur liðsins mjög sannfærandi.

Auk þess að skora 27 stig átti Kristrún 7 stoðsendingar og tók 4 fráköst. Sigrún Ámundadóttir skoraði 18 stig, Julia Demirer 16, Guðbjörg Sverrisdóttir 14, Fanney Lind Guðmundsdóttir 9, Íris Ásgeirsdóttir 4 og þær Koren Schram og Hafrún Hálfdánardóttir skoruðu báðar 2 stig.

Í liði KR var Unnur Tara Jónsdóttir stigahæst með 20 stig. Gnúpverjinn Heiðrún Kristmundsdóttir skoraði 4 stig en Hvergerðingurinn Jóhanna Björk Sveinsdóttir komst ekki á blað.

Liðin mætast aftur á mánudag kl. 19:15 í Hveragerði.

Fyrri greinGufusprengingar í Hvannárgili
Næsta greinKnattspyrna: Atli klóraði í bakkann