Hamar komst ekki uppfyrir Val

Kvennalið Hamars tapaði 76-80 þegar Grindvíkingar komu í heimsókn í kvöld í Domino's-deildinni í körfubolta.

Fyrsti fjórðungurinn var jafn en Hamar skoraði sjö síðustu stigin í honum og leiddi 21-19 að tíu mínútum liðnum. Jafnræðið hélt áfram í 2. leikhluta en staðan í hálfleik var 45-43.

Munurinn var áfram lítill á liðunum í 3. leikhluta en Grindvíkingar voru þó ákveðnari og náðu að komast yfir um miðjan leikhlutann. Grindavík var fjórum stigum yfir þegar síðasti leikhlutinn hófst en Hamarskonur voru komnar með tveggja stiga forystu þegar tæpar tvær mínútur voru eftir, 76-74.

Hamri tókst hins vegar ekki að skora á þessum síðustu tveimur mínútum, misstu boltann og hittu illa, svo að Grindvíkingar gengu á lagið og kláruðu leikinn.

Chelsie Schweers var stigahæst hjá Hamri með 30 stig og 12 fráköst, Íris Ásgeirsdóttir skoraði 18 stig, Marín Laufey Davíðsdóttir 14 auk 12 frákasta, Fanney Lind Guðmundsdóttir skoraði 11 stig og Sóley Guðgeirsdóttir 3.

Með sigri í kvöld hefði Hamar komist upp fyrir Val á stigatöflunni en liðin eru í hörkukeppni um sæti í úrslitakeppni deildarinnar. Næsti leikur Hamars er einmitt gegn Val á útivelli á miðvikudagskvöld og þurfa Hamarskonur á sigri að halda til að eiga áframhaldandi möguleika á sæti í úrslitakeppninni.

Fyrri greinSelfyssingar bikarmeistarar í 3. flokki
Næsta greinIPA styrkurinn lækkar um 12 milljónir króna