Hamar komst ekki í úrslit – Uppsveitir lögðu Árborg

Hilmar Jóhannsson og Rúnar Þorvaldsson berjast um boltann í Hveragerði í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var boðið upp á tvo alvöru Suðurlandsslagi í lokaumferð 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Hamar og KFR mættust í Hveragerði og Árborg og Uppsveitir á Selfossi.

Það var meira í húfi í Hveragerði þar sem Hamar þurfti að sigra KFR til þess að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni og í nýju 4. deildinni á næsta ári. Hamar þurfti líka að treysta á að topplið Ýmis myndi sigra GG en þar náði GG 2-2 jafntefli, þannig að úrslitin í Hveragerði skiptu engu máli. Ýmir og GG fara í úrslitakeppnina úr D-riðlinum. Hamar fer niður í 5. deild og KFR fer í umspil gegn Boltafélagi Norðfjarðar. Leikið verður heima og heiman og mun sigurliðið leika í 5. deild á næsta ári en tapliðið fer í Utandeild KSÍ.

Lokatölur í Hveragerði í kvöld urðu 1-1 í leik þar sem Hamarsmönnum var gjörsamlega fyrirmunað að skora. Þeir fengu urmul færa og það var ekki fyrr en á 83. mínútu að Frans Sigurðssyni tókst loksins að troða boltanum yfir marklínuna. Rangæingar voru þá orðnir manni færri eftir að Helgi Valur Smárason fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt. Helgi missir því af fyrri leik KFR í umspilinu á Neskaupstað.

Þrátt fyrir að vera manni og marki undir voru Rangæingar ekki hættir og þjörmuðu að Hamarsvörninni. Á 89. mínútu jafnaði Hjörvar Sigurðsson svo metin eftir snarpa sókn. Lokatölur 1-1 og þegar flautað var til leiksloka hitnaði í kolunum þar sem Hamarmenn voru mjög ósáttir við dómara leiksins. Þeirri reikistefnu lauk með að Sigurður Ísak Ævarsson og liðsstjórinn Orri Snævar Stefánsson fengu báðir að líta rauða spjaldið.

Razvan yfir 40 mörkin
Það var öllu rólegri stemning á Selfossi þar sem Árborg og Uppsveitir mættust. Gestirnir í #Gíslisarmy voru sterkari í fyrri hálfleik og George Razvan kom þeim yfir á 20. mínútu með góðu marki og hann var svo nálægt því að skora aftur þegar hann tók bakfallsspyrnu í þverslána. Staðan var 0-1 í hálfleik og leikurinn var í járnum í upphafi seinni hálfleiks. Razvan var aftur á ferðinni á 66. mínútu með sínu 40. marki í deildinni í sumar en fljótlega veiddi Elvar Orri Sigurbjörnsson boltann af varnarmanni Uppsveita og skoraði gott mark fyrir Árborg. Vonarneisti Árborgar slökknaði hins vegar fimm mínútunum síðar þegar Kristinn Sölvi Sigurgeirsson skoraði eitt af mörkum ársins. Hann fékk boltann við miðju og lék á tvo miðjumenn áður en hann saltaði varnarlínu Árborgar eins og hún lagði sig og smurði boltanum svo með jörðinni i netið. Magnað mark. Uppsveitir sóttu ákaft á lokasprettinum og áttu nóg inni og í uppbótartímanum kórónaði Razvan þrennuna og 1-4 sigur Uppsveita.

Úrslitin í C-riðlinum voru ráðin fyrir leikinn. Uppsveitir tóku toppsætið og Árborg er í 2. sæti. Keppni í riðlunum er ekki lokið og styrkleikaröð liðanna gæti breyst en ef síðustu leikirnir fara eftir bókinni er líklegt að Uppsveitir mæti Ými í 8-liða úrslitum og að Árborg mæti Árbæ í umspili liðanna í 2. sæti. Sigurliðið í þeim leik myndi mæta KFK í 8-liða úrslitum.

George Razvan fagnar fertugasta marki sínu í 4. deildinni í sumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinSelfoss bara með í seinni hálfleik
Næsta greinHamar fær styrk til að sporna við brottfalli