Hamar kom til baka – KFR gaf eftir

Spænska tríóið í Hamri (f.v.) Basilio Jordan, Carlos Castellano og Alejandro Lopez eru tilbúnir í úrslitakeppnina. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar vann góðan útisigur á Skallagrími í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld en KFR tapaði gegn RB, einnig á útivelli.

Í Borgarnesi komst Skallagrímur yfir í fyrri hálfleik og staðan var 1-0 í leikhléi. Hvergerðingar mættu hins vegar grimmir inn í seinni hálfleikinn og Logi Geir Þorláksson jafnaði 1-1. Spænski framherjinn Basillo Jordan tryggði Hamri svo sigurinn með glæsilegu marki og lokatölur urðu 1-2. Hamar hefur 35 stig í toppsæti B-riðils en þetta var síðasti leikur liðsins í riðlakeppninni. KH er í 2. sæti með 34 stig og á tvo leiki til góða.

KFR heimsótti RB í Reykjaneshöllina í hörkuslag. Ívan Breki Sigurðsson kom KFR yfir í fyrri hálfleik með frábæru marki og Rangæingar leiddu í leikhléi. RB svaraði fyrir sig þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik en Hjörvar Sigurðsson kom KFR strax aftur í forystu. Heimamenn voru hins vegar sterkari á lokakaflanum, þeir jöfnuðu aftur um miðjan seinni hálfleikinn og skoruðu svo sigurmarkið þegar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum, 3-2. Þar með lauk sigurgöngu KFR sem hefur verið á miklu skriði í síðustu fjórum leikjum. KFR er í 5. sæti A-riðilsins með 18 stig en RB er í 3. sæti með 26 stig og er að keppa við Árborg um sæti í úrslitakeppninni.

Fyrri greinÞruma frá Þór bjargaði Selfyssingum
Næsta greinKjötsúpuhátíðinni aflýst