Hamar, KFR og Ægir öll áfram – Stokkseyri úr leik

Hamar, KFR og Ægir unnu öll sína leiki í 1. umferð Borgunarbikars karla í knattspyrnu í dag og eru komin áfram í 2. umferð.

Hamar, sem leikur í 2. deild, lenti undir gegn 4. deildarliði Ísbjarnarins. Ísbjörninn komst yfir á 14. mínútu en Kristján Valur Sigurjónsson og Eiríkur Raphael Elvy komu Hamri í 1-2 fyrir leikhlé. Í síðari hálfleik sneru Hvergerðingar Ísbjörninn niður og skoruðu fjögur mörk til viðbótar. Þar voru á ferðinni þeir Óskar Mári Haraldsson, Ingþór Björgvinsson og Atli Hjaltested.

3. deildarlið KFR var með unninn leik í höndunum gegn 4. deildarliði Léttis en staðan í hálfleik var 3-0. Léttismenn létu þó ekki segjast og minnkuðu muninn í 3-2 þegar um 25 mínútur voru eftir af leiknum. Þar við sat þrátt fyrir ágætar tilraunir beggja liða og KFR fór með sigur af hólmi.

Í Þorlákshöfn mættust 2. deildarlið Ægis og 4. deildarlið KB. Þar var fyrri hálfleikur markalaus en strax á 2. mínútu síðari hálfleiks skoraði Aco Pandurevic fyrir Ægi og reyndist það eina mark leiksins.

4. deildarlið Stokkseyrar féll úr leik eftir 4-2 tap gegn utandeildarliðinu Hómer á útivelli. Það voru þeir Gylfasynir, Bjarki og Valdimar, sem skoruðu mörk Stokkseyrar eftir að Hómer hafði komist í 4-0 í fyrri hálfleik.

Stórleikur 2. umferðarinnar í Borgunarbikarnum verður leikur Ægis og Grindavíkur, Hamar heimsækir Berserki og KFR mætir Ými á útivelli.

UPPFÆRT KL. 18:58

Fyrri greinFjör á Sunnlenska sveitadeginum
Næsta greinGrýlupottahlaup 5/2013 – Úrslit