Hamar jarðaði Njarðvík

Hamar vann stórsigur á Njarðvík í þriðja leik liðanna í úrslitakeppni Iceland Express-deildar kvenna í Hveragerði í kvöld, 83-47. Staðan í einvíginu er 2-1.

Eftir jafnan 1. leikhluta skildu leiðir þar sem Hamar hélt Njarðvík í fjórum stigum í 2. leikhluta og skoruðu sjálfar 23. Staðan var 39-18 í hálfleik.

Yfirburðir Hamars héldu áfram í seinni hálfleik og Njarðvík var aldrei nálægt því að koma til baka. Liðsheildin var frábær hjá Hvergerðingum og sex leikmenn voru með tíu eða meira í tölfræðiframlag.

Fanney Lind Guðmundsdóttir og Guðbjörg Sverrisdóttir voru stigahæstar með 16 stig, Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 15 og Slavica Dimovska 7 auk þess að senda 10 stoðsendingar. Jenný Harðardóttir og Íris Ásgeirsdóttir 7 skoruðu sömuleiðis 7 stig, Jaleesa Butler 6 auk þess að taka 12 fráköst, Þórunn Bjarnadóttir skoraði 4 stig og tók 7 fráköst, Regína Ösp Guðmundsdóttir skoraði 3 stig og Kristrún Rut Antonsdóttir 2.

Hjá Njarðvík var Julia Demirer stigahæst með 12 stig og 13 fráköst.

Næsti leikur liðanna verður í Njarðvík á laugardaginn kl. 15 en þrjá sigra þarf til að komast áfram í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn.

Fyrri greinSýknaður af ritalínsmygli
Næsta greinTap í háspennuleik