Hamar jafnaði eftir framlengdan leik

Hamar sigraði Fjölni 114-110 í framlengdum leik í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta í Hveragerði í kvöld. Staðan í einvígi liðanna er því 1-1.

Fjölnir skoraði fyrstu átta stigin í leiknum en þá komust Hvergerðingar í gang og fyrri hálfleikurinn varð jafn og spennandi. Staðan var 39-42 í hálfleik.

Hvergerðingar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og komust mest níu stigum yfir en staðan var 69-62 þegar 4. leikhluti hófst. Hamar hélt nokkuð öruggu forskoti og leiddi 93-86 þegar 34 sekúndur voru eftir. Lokasekúndurnar voru hins vegar magnaðar, þar sem allt fór í handaskolum hjá Hamri og Fjölnir náði að skora sjö stig á sautján sekúndna kafla og jafna 93-93.

Framlenging varð því raunin og hún varð sannkölluð stórskotasýning þar sem liðin skoruðu samtals 38 stig á fimm mínútum. Hamar hafði frumkvæðið í framlengingunni og voru sterkari á lokamínútunni.

Næsti leikur liðanna er á mánudagskvöld í Grafarvogi en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki er komið í undanúrslit.

Tölfræði Hamars: Christopher Woods 29 stig/17 fráköst/7 stoðsendingar, Erlendur Ágúst Stefánsson 28 stig/4 fráköst, Hilmar Pétursson 17 stig/5 fráköst, Örn Sigurðarson 15 stig/4 fráköst, Rúnar Ingi Erlingsson 9 stig/4 fráköst, Smári Hrafnsson 6 stig, Oddur Ólafsson 5 stig/7 stoðsendingar, Snorri Þorvaldsson 5 stig.

Fyrri greinStórt tap í Laugardalshöllinni
Næsta greinArnór tryggði Selfossi sigur í uppbótartíma