Hamar jafnaði í uppbótartíma

Hamar knúði fram dramatískt jafntefli gegn HK í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld en á sama tíma tapaði Ægir fyrir ÍR á útivelli.

Leikurinn í Hveragerði var markalaus allt fram á 86. mínútu þegar gestirnir náðu að brjóta ísinn. Allt stefndi því í sigur þeirra en í uppbótartíma jafnaði Hrunamaðurinn Kristján Valur Sigurjónsson leikinn fyrir Hamar og tryggði þeim eitt stig.

Ægir sótti ÍR heim í Breiðholtið í kvöld. Þar komust heimamenn yfir á 16. mínútu og leiddu 1-0 í hálfleik. ÍR bætti við öðru marki á 54. mínútu en þegar tuttugu mínútur voru eftir minnkaði Darko Matejic muninn með marki úr vítaspyrnu og þar við sat.

Hamar er í áttunda sæti deildarinnar en Ægir í því níunda. Bæði lið hafa þrjú stig en liðin mætast innbyrðis í næstu umferð, á Þorlákshafnarvelli þann 1. júní.

Fyrri greinHreinn Heiðar sveif yfir 1,97 m
Næsta greinLjósan á Bakkanum