Hamar jafnaði í spennuleik

Hamar jafnaði einvígið við Val með frábærum sigri á heimavelli í 1. deild karla körfubolta í kvöld. Lokakaflinn var æsispennandi en Hamar sigraði 93-91.

Það tók Hamar þrjár og hálfa mínútu að skora fyrstu stig sín í leiknum eftir að Valur hafði komist í 0-8. Þá loksins fóru Hvergerðingar að spila vörn og náðu þeir forystunni áður en 1. leikhluta lauk, 17-14. Valur hefði frumkvæðið í upphafi 2. leikhluta en Hvergerðingar kláruðu hann vel, innblásnir af frábæru vörðu skoti hjá Christopher Woods, þegar lítið var eftir. Staðan var 37-37 í hálfleik.

Það var lítið um varnir í 3. leikhluta þar sem bæði lið skoruðu mikið og staðan var orðin 67-68 að honum loknum. Fjórði leikhlutinn var æsispennandi, Valur byrjaði betur og náði átta stiga forskoti, 71-83 en Hamar svaraði með níu stigum í röð og tók forystuna.

Valsmenn skoruðu næstu fimm stig en aftur gerðu Hvergerðingar níu stiga áhlaup og staðan var 91-86 þegar 25 sekúndur voru eftir. Valsmenn reyndu grimmt að klóra í bakkann og þegar tvær sekúndur voru eftir minnkaði Austin Bracey muninn í eitt stig með þriggja stiga skoti utan úr bæ, 92-91. Valsmenn sendu Hilmar Pétursson umsvifalaust á vítalínuna og hann skoraði síðasta stig Hamars, lokatölur 93-91.

Næsti leikur liðanna verður að Hlíðarenda á fimmtudagskvöld kl. 19:30.

Tölfræði Hamars: Christopher Woods 36 stig/14 fráköst/4 varin skot, Örn Sigurðarson 21 stig/10 fráköst, Hilmar Pétursson 19 stig/7 fráköst, Erlendur Stefánsson 9 stig/5 fráköst, Oddur Ólafsson 5 stig/5 stoðsendingar, Rúnar Erlingsson 3 stig/5 fráköst/8 stoðsendingar.