Hamar í úrslitaeinvígið

Hamarsmenn fagna. Mynd úr safni. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Hamar sigraði Selfoss í fjórðu viðureign liðanna í undanúrslitum 1. deildar karla í körfubolta, 88-96 á Selfossi.

Hamarsmenn eru þar með komnir í úrslitaeinvígið gegn Vestra en Selfyssingar eru farnir í sumarfrí.

Leikurinn var í járnum framan af en í 2. leikhluta spiluðu Hvergerðingar virkilega vel og náðu góðu forskoti fyrir leikhlé, 42-55.

Selfyssingar svöruðu fyrir sig í 3. leikhluta og í upphafi þess fjórða náðu þeir að komast fyri, 74-72. Þá hrukku Hamarsmenn aftur í gang, hentu niður fimm þriggja stiga körfum í röð og lögðu þar með grunninn að sigrinum. Selfoss var aldrei langt undan en Hvergerðingar voru klókari á lokakaflanum og tryggðu sér sigurinn.

Jose Aldana var bestur hjá Hamri með tröllatvennu, 22 stig og 18 stoðsendingar og hjá Selfossi átti Terrence Motley stórleik en hann skoraði 34 stig, tók 7 fráköst og sendi 6 stoðsendingar.

Tölfræði Selfoss: Terrence Motley 34/7 fráköst/6 stoðsendingar, Kennedy Aigbogun 19/12 fráköst, Arnór Bjarki Eyþórsson 15, Kristijan Vladovic 9/4 fráköst/8 stoðsendingar, Sveinn Búi Birgisson 6/5 stoðsendingar, Gunnar Steinþórsson 3/5 stoðsendingar, Aljaz Vidmar 2.

Tölfræði Hamars: Jose Aldana 22/6 fráköst/18 stoðsendingar, Ruud Lutterman 20/6 fráköst, Ragnar Jósef Ragnarsson 20, Pálmi Geir Jónsson 15/9 fráköst, Ragnar Magni Sigurjónsson 11/4 fráköst, Óli Gunnar Gestsson 8, Steinar Snær Guðmundsson 6 fráköst.

Fyrri grein„Þetta gekk alltsaman upp“
Næsta greinSelfoss tók fjórða sætið með sigri á Gróttu