Hamar í úrslit þriðja árið í röð

Kristján Valdimarsson, leikmaður Hamars. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamarsmenn eru komnir í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn í blaki karla, þriðja árið í röð, eftir 3-0 sigur á Vestra á Ísafirði í dag.

Hamar vann fyrri viðureignina við Vestra einnig 3-0. Þó sigurinn hafi verið öruggur í tölum, þá var um hörkuleik að ræða og spennandi hrinur í rafmagnaðri stemningu í íþróttahúsinu á Ísafirði.

Hamar vann fyrstu hrinuna 19-25 og í 2. hrinu þurfti upphækkun til að knýja fram úrslit í henni en Hamar vann hrinuna að lokum 29-31. Þriðja hrinan fór 20-25 og 3-0 sigur Hamars því í höfn.

Hvergerðingar munu mæta Aftureldingu eða KA í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn, sem Hamarsmenn hafa unnið undanfarin tvö ár.

Fyrri greinÆgir úr leik eftir prýðilega frammistöðu
Næsta greinSamráðsfundur um sjálfbæra þróun