Hamar í undanúrslit – Árborg úr leik

Kristinn Ásgeir Þorbergsson skoraði þrennu fyrir Hamar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamarsmenn eru komnir í undanúrslit 4. deildar karla í knattspyrnu eftir sigur á Kríu í kvöld en Árborg er úr leik eftir tap gegn Vængjum Júpíters.

Hamar komst yfir strax á 9. mínútu á Seltjarnarnesinu þegar Kristinn Ásgeir Þorbergsson skoraði og Ísak Leó Guðmundsson tvöfaldaði forystuna á 31. mínútu. Hamarsmenn komnir í góð mál með tvö útivallarmörk en fyrri leikur liðanna fór 1-1.

Það var hart barist í seinni hálfleiknum en samtals fóru þrettán gul spjöld á loft í leiknum og tvö rauð. Kría minnkaði muninn á 58. mínútu en missti mann af velli með rautt spjald tíu mínútum síðar. Hvergerðingar innsigluðu svo 1-3 sigur með sjálfsmarki Kríu á 83. mínútu og fögnuðu vel í leikslok. Hamar mætir Kormáki/Hvöt í undanúrslitunum og hefst einvígið í Hveragerði á föstudaginn.

Árborg er hins vegar úr leik eftir 2-1 tap gegn Vængjum Júpíters á gervigrasi Fjölnis í Grafarvogi. Fyrri leikur liðanna fór 2-2 og í kvöld kom Magnús Hilmar Viktorsson Árborg yfir með þrumufleyg í þverslána og inn á 30. mínútu. Bæði lið fengu góð færi í fyrri hálfleik en staðan var 0-1 í leikhléi. Í seinni hálfleiknum vörðust Árborgarar vel en Vængirnir þjörmuðu stíft að þeim og á 73. mínútu jöfnuðu þeir metin. Árborg þurfti því að færa sig framar en tókst illa að skapa færi og þremur mínútum fyrir leikslok refsuðu Vængirnir með marki úr skyndisókn. Lokatölur 2-1 og Vængir mæta KH í undanúrslitum.

Fyrri grein29 í einangrun á Suðurlandi
Næsta greinÆgir upp í 2. sætið