Hamar í toppmálum

Hamarsmenn eru í toppmálum í riðli-3 í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu. Hamar vann öruggan sigur á Augnabliki í dag.

Hvergerðingar léku á alls oddi í fyrri hálfleik og Logi Geir Þorláksson kom þeim yfir strax á 1. mínútu leiksins. Augnablik jafnaði metin á 24. mínútu en í kjölfarið fylgdu þrjú mörk frá Hamri sem leiddi 1-4 í leikhléi. Tómas Hassing skoraði tvö mörk í röð og Liam Killa bætti fjórða markinu við.

Seinni hálfleikurinn var öllu rólegri en Augnablik minnkaði muninn í 2-4 á 65. mínútu en skömmu síðar innsiglaði Hrannar Einarsson 2-5 sigur Hamars.

Hamar hefur unnið alla þrjá leiki sína í riðlinum og dugar jafntefli í síðustu umferðinni gegn Hvíta riddaranum, til þess að komast í úrslitakeppni Lengjubikarsins.

Fyrri greinLeitað að fjögurra ára dreng á Selfossi
Næsta greinAnnríki hjá björgunarsveitum í gær