Hamar í toppmálum

Óliver Þorkelsson í leik með Hamri síðasta sumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar fór langleiðina með að tryggja sér sæti í úrslitakeppni 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld með 3-0 sigri á Skautafélagi Reykjavíkur.

Liðin mættust í Hveragerði í kvöld og Ísak Leó Guðmundsson kom Hamri yfir strax á 8. mínútu. Það reyndist eina mark fyrri hálfleiks. Óliver Þorkelsson kom Hamri í 2-0 um miðjan seinni hálfleikinn og skömmu síðar skoraði Kristinn Ásgeir Þorbergsson sitt fyrsta mark fyrir Hamar og tryggði þeim 3-0 sigur. Hamar hefur nú 26 stig í 2. sæti B-riðilsins en SR er í 3. sæti með 15 stig og á tvo leiki til góða. Munurinn er þó það mikill að það þarf mikið að bregða útaf hjá Hamri til að missa af sætinu í úrslitakeppninni, þangað sem tvö efstu liðin í riðlinum fara.

Í A-riðlinum mættust einnig liðin í 2. og 3. sæti, Árborg og RB í Reykjaneshöllinni. Þetta var hörkuleikur sem var markalaus lengst af. Andrés Karl Guðjónsson kom Árborg yfir á 52. mínútu en heimamenn jöfnuðu metin á 76. mínútu eftir þunga sókn. Bæði lið fengu góð færi á lokakaflanum en inn vildi boltinn ekki og lokatölur urðu 1-1.

KFR tók á móti Berserkjum á Hvolsvelli í kvöld en liðin eru einnig í A-riðlinum. KFR lék vel í kvöld og vann öruggan sigur. Ívan Breki Sigurðsson kom þeim yfir á 5. mínútu og á 32. mínútu skoraði Hjörvar Sigurðsson annað mark KFR. Staðan var 2-0 í hálfleik en gestirnir minnkuðu muninn snemma í seinni hálfleik. Í kjölfarið fylgdu tvö mörk frá KFR, Ívan Breki skoraði aftur og síðan skoraði Trausti Rafn Björnsson stórkostlegt mark og kom KFR í 4-1. Aron Birgir Guðmundsson bætti við fimmta marki KFR á 81. mínútu en gestirnir náðu að klóra í bakkann á lokamínútunni og lokatölur urðu 5-2.

Árborg er áfram í 2. sæti riðilsins, nú með 20 stig og RB er í 3. sæti með 17 stig. KFR lyfti sér upp í 6. sætið með sigrinum í kvöld og er með 12 stig, eins og Berserkir sem eru í 7. sæti.

Fyrri grein„Hefðum viljað sækja sigurmarkið“
Næsta greinLay Low í Strandarkirkju