Hamar í fínum málum

Hamar vann góðan sigur á Þór Akureyri í 1. deild karla í körfubolta í kvöld og er á góðri leið með að tryggja sér heimaleikjarétt í úrslitakeppni deildarinnar.

Þórsarar, sem sitja á botni deildarinnar, leiddu eftir 1. leikhluta, 16-21, en Hamar komst yfir fyrir leikhlé, 39-36. Í síðari hálfleik voru Hvergerðingar sterkari og sigruðu að lokum, 88-67.

Julian Nelson var stigahæstur hjá Hamri með 32 stig, Örn Sigurðarson skoraði 29, Þorsteinn Gunnlaugsson 8 auk þess sem hann tók 10 fráköst, Halldór Gunnar Jónsson skoraði 7 stig, Snorri Þorvaldsson 6 og þeir Stefán Halldórsson, Bjartmar Halldórsson og Hjalti Ásberg Þorleifsson skoruðu allir 2 stig.

Hamar er í 2. sæti deildarinnar með 26 stig og mætir KFÍ í lokaumferðinni.

Fyrri greinSelfoss vann öruggan sigur
Næsta greinSigurður endurkjörinn formaður