Hamar í botnsætið

Hamarskonur töpuðu naumlega fyrir Fjölni í uppgjöri botnliðanna í Iceland Express-deildinni í körfubolta í kvöld. Lokatölur voru 88-85 í Grafarvogi.

Leikurinn var hnífjafn og spennandi en Hamar leiddi að loknum 1. leikhluta, 22-23. Kristrún Rut Antonsdóttir skoraði fyrstu fjögur stigin í 2. leikhluta og kom Hamri í 22-27 en Fjölniskonur svöruðu fyrir sig með 13-2 leikkafla og leiddu í hálfleik, 41-35.

Í upphafi 3. leikhluta náði Fjölnir tíu stiga forskoti, 47-37, en Hamar kom til baka og komst yfir, 56-59. Fjölnir skoraði þá ellefu stig gegn einu og hafði sex stiga forystu þegar 3. leikhluta lauk, 67-61.

Hamar byrjaði betur í 4. leikhluta og jafnaði 71-71 en eftir það hafði Fjölnir frumkvæðið og leiddi allt fram á lokamínútuna að Hamar komst yfir, 84-85. Fjölniskonur svöruðu með þriggja stiga körfu þegar 35 sekúndur voru eftir. Hamar fékk tvö færi á að jafna leikinn á lokasekúndunum en tókst ekki og Fjölnir tryggði sér sigurinn á vítalínunni á síðustu andartökum leiksins.

Samantha Murphy var stigahæst hjá Hamri með 37 stig. Katherine Graham skoraði 18 og tók 13 fráköst, Álfhildur Þorsteinsdóttir skoraði 13, Jenný Harðardóttir 11, Kristrún Rut Antonsdóttir 5 og Marín Laufey Davíðsdóttir 1.

Með sigrinum fór Fjölnir upp fyrir Hamar á stigatöflunni og deildarmeistararnir frá síðasta tímabili sitja nú á botninum með 4 stig að loknum tólf umferðum í deildinni.

Fyrri greinUni og Jón Tryggvi í jólalagakeppninni
Næsta greinGat á stefni Skandia