Hamar í botnsætið – KFR tapaði

Hamar tapaði fyrir Hetti í botnbaráttu 2. deildar karla í knattspyrnu í dag og KFR tapaði fyrir Magna í botnbaráttu 3. deildarinnar.

Leikurinn í Hveragerði var markalaus þangað til á 89. mínútu að gestirnir skoruðu eina mark leiksins. Þetta var fyrsti sigur Hattar í sumar í sautján leikjum og með sigrinum fóru Héraðsbúar upp fyrir Hamar og skildu Hvergerðinga eftir í botnsæti deildarinnar.

KFR heimsótti Magna á Grenivík. Heimamenn komust í 2-0 í fyrri hálfleik og þannig stóðu leikar í leikhléi. Magni bætti þriðja markinu við á lokamínútum leiksins og lokatölur urðu 3-0. KFR er í 6. sæti deildarinnar með 16 stig en aðeins þrjú stig eru niður í Magna í 9. sætinu.

Fyrri greinLést í eldsvoða í Þjórsárdal
Næsta greinBakkanum lýkur í dag