Hamar í 16-liða úrslitin

3. deildarlið Hamars tryggði sér í kvöld sæti í 16-liða úrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu þegar liðið lagði 2. deildarlið KF að velli á Grýluvelli, 3-2.

Fyrri hálfleikur var markalaus en Ingþór Björgvinsson kom Hamri yfir á 53. mínútu og tveimur mínútum síðar bætti Samúel Arnar Kjartansson öðru marki við.

KF minnkaði muninn í 2-1 á 65. mínútu en fimm mínútum síðar skoraði Samúel Arnar aftur fyrir Hamar og reyndist það sigurmark leiksins. Gestirnir minnkuðu muninn í 3-2 á 88. mínútu en lengra komust þeir ekki og Hvergerðingar fögnuðu í lokin.

Dregið verður í 16-liða úrslitin í hádeginu á föstudaginn en meðal liða sem þegar eru komin í pottinn með Hamri eru úrvalsdeildarliðin Breiðablik, ÍBV, Þór Akureyri, Valur og Fylkir. Síðustu leikirnir í 32-liða úrslitunum verða annað kvöld en þá heimsækja Selfyssingar meðal annars Stjörnuna.

Fyrri greinSamið um framkvæmdir við Krakkaborg
Næsta greinFyrstu stig Selfoss í deildinni