Hamar gaf eftir í seinni hálfleik

Kvennalið Hamars heimsótti Keflavík í dag í Domino's-deildinni í körfubolta. Keflvíkingar voru sterkari þegar leið á leikinn og sigruðu 79-63.

Leikurinn var jafn í 1. leikhluta en staðan að honum loknum var 19-18. Baráttan hélt áfram í 2. leikhluta en þegar 50 sekúndur voru eftir af honum leiddi Keflavík 37-32. Hamar skoraði hins vegar sex síðustu stigin í fyrri hálfleik og leiddi í leikhléinu, 37-38.

Keflvíkingar voru sterkar í seinni hálfleik, byrjuðu 3. leikhluta á 10-2 áhlaupi og héldu forystunni eftir það til leiksloka.

Marín Laufey Davíðsdóttir átti góðan leik fyrir Hamar, skoraði 24 stig og tók 11 fráköst. Di’Amber Johnson skoraði 14 stig, Íris Ásgeirsdóttir 12, Fanney Lind Guðmundsdóttir 6, Jenný Harðardóttir 4 og Sóley Guðgeirsdóttir 3.

Að loknum fjórum umferðum er Hamar í 7. sæti deildarinnar með 2 stig.

Fyrri greinLíf og fjör hjá skátum í Hveragerði
Næsta greinKaupa íþróttamiðstöðina