Hamar frestaði gleðinni hjá Hetti

Hamar tók á móti toppliði Hattar í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöldi. Með sigri hefði Höttur tryggt sér sæti í efstu deild en Hamar kom í veg fyrir það með 119-107 sigri.

Leikurinn var hnífjafn og æsispennandi lengst af. Gestirnir leiddu að loknum 1. leikhluta, 22-25, og náðu svo sjö stiga forskoti í 2. leikhluta, 34-41.

Þá hrukku Hamarsmenn í gírinn og náðu að tryggja sér ellefu stiga forystu í hálfleik með 24-6 áhlaupi. Staðan í hálfleik var 58-47.

Hattarmenn gáfust ekki upp og minnkuðu muninn í 3. leikhluta og þegar tvær og hálf mínúta voru liðnar af 4. leikhluta var munurinn aðeins fjögur stig, 95-91. Hamar gaf hins vegar allt í lokakaflann og vann að lokum með tólf stiga mun.

Julian Nelson var besti maður vallarins, skoraði 33 stig og tók 13 fráköst. Þorsteinn Gunnlaugsson átti einnig frábæran leik, skoraði 23 stig og tók 13 fráköst. Snorri Þorvaldsson skoraði 20 stig, Örn Sigurðarson 19, Sigurður Hafþórsson 10, Bjarni Rúnar Lárusson 8 og Bjartmar Halldórsson 6.

Hamar er í 2. sæti deildarinnar með 24 stig en Höttur er í toppsætinu með 30 stig. Héraðsbúar hafa hins vegar leikið einum leik meira en Hamar.

Fyrri greinÞórsarar flengdu bikarmeistarana
Næsta greinTugmilljónamiði í Samkaupum á Selfossi