Hamar fékk skell á heimavelli

Kvennalið Hamars tapaði stórt þegar Keflavík kom í heimsókn í Domino’s-deild kvenna í körfubolta í kvöld.

Keflvíkingar réðu lögum og lofum frá upphafi, komust í 5-20 í 1. leikhluta en staðan að honum loknum var 9-24. Keflavík náði mest 23 stiga forskoti í 2. leikhluta en staðan í hálfleik var 24-43.

Gestirnir létu kné fylgja kviði gegn vængbrotnu Hamarsliði í síðari hálfleik en Hvergerðingar léku án erlends leikmanns í leiknum þar sem Andrina Rendon var send heim á dögunum. Lokatölur urðu 48-92.

Salbjörg Sævarsdóttir var stigahæst Hvergerðinga með 14 stig, Þórunn Bjarnadóttir skoraði 13, Heiða B. Valdimarsdóttir 10, Kristrún Rut Antonsdóttir 8 og Sóley Guðgeirsdóttir 3.

Fyrri greinAron Ýmir í þremur efstu sætunum
Næsta greinBókakaffið í stórsókn í bókaútgáfu