Hamar fékk Fjölni úti

Hamar mætir Fjölni á útivelli í 16-liða úrslitum Valitor-bikars karla í knattspyrnu. Dregið var í hádeginu í dag.

Hamar sló KFS út í 32-liða úrslitunum eftir að hafa komið aftur inn í keppnina þegar Léttir féll út vegna kærumáls. Fjölnir sló Selfoss út í 32-liða úrslitum.

Jón Aðalsteinn Kristjánsson, þjálfari Hamars, var ánægður með dráttinn og sagði í samtali við fotbolti.net að um verðugt verkefni væri að ræða. “Við erum aldrei búnir að tapa leiknum fyrirfram þó að Fjölnir sé með ungt og vel spilandi 1. deildarlið,” sagði Jón Aðalsteinn.

Leikur Fjölnis og Hamars fer fram mánudaginn 20. júní kl. 19:15 á Fjölnisvelli.